Hlutabréfaverð Xvivo Perfusion, sænsks heilbrigðistæknifyrirtækis, hækkaði um 15% þegar mest lét í dag eftir að fréttir bárust af því að vélbúnaður sem fyrirtækið þróar hafi verið notaður í fyrstu hjartaígræðslu í sögunni þar sem svínshjarta var grætt í lifandi mann.

Skurðlæknar við háskólasjúkrahúsið í Maryland fengu sérstaka undanþágu til að græða erfðabreyttu svínshjarta í hinn 57 ára gamla David Bennett sem þjáist af banvænum hjartasjúkdómi. Aðgerðin, sem tók sjö klukkutíma og fór fram á föstudaginn, var síðasta von um að bjarga lífi Bennett en beiðni hans um hefðbundna hjartaígræðslu var hafnað, ákvörðun sem er yfirleitt tekin þegar sjúklingar eru metnir of veikburða.

„Það var annað hvort að deyja eða fara í þessa ígræðslu,“ hefur BBC eftir Bennet.

Svínið sem var notað var í ígræðslunni hafði verið erfðabreytt til að fjarlægja gen sem hefðu valdið því að líkami Bennett hefði hafnaði líffærinu. Aðgerðin kemur í kjölfar margra ára rannsókna á þessu sviði. Skurðlæknirinn Bartley Griffith segir að með aðgerðinni sé heimurinn „einu skrefi nær því að leysa líffæraskortskrísuna“. Að meðaltali látast sautján manns í Bandaríkjunum á hverjum degi við að bíða eftir ígræðslu.

Forstjóri Xvivo, Dag Andersson, segir við Bloomberg að Xvivo tæknin sem stuðst var við í aðgerðinni verði einnig notuð af læknateymi í Evrópu sem er nú að undirbúa sambærilegt verkefni.

„Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast svona hratt,“ er haft eftir Andersson. „Þessi tækni hefur farið fram úr væntingum allra.“

Xvivo hefur þróað nýja aðferð til að geyma og flytja gjafahjörtu á skilvirkan máta. Búnaðurinn er ætlaður hefðbundinni hjartaígræðslu og hefur verið prófaður í klínískum rannsóknum. Tæknin hefur verið skilgreind sem „byltingarkennd vara“ (e. breakthrough device) af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna. „Við getum ekki beðið eftir að koma þessari tækni á markaðinn,“ segir Adersson.

Gengi hlutabréfa Xvivo lækkuðu örlítið þegar leið á daginn og við lokun sænska hlutabréfamarkaðarins nam dagshækkunin 6,1%. Markaðsvirði fyrirtækisins nemur tæplega 100 milljörðum íslenskra króna.

David Bennett
David Bennett
© epa (epa)

David Bennett er hér myndaður með skurðlækninum Bartley Griffith fyrir aðgerðina.