Á Facebook ganga nú auglýsingar þar sem mynd af Björgólfi Thor er notuð til þess að svindla á fólki. Svindlið virðist í grófum dráttum ganga út á að kynna einhverskonar gróðatækifæri í tengslum við Bitcoin, en rafmyntin hefur hækkað gífurlega á undanförnum dögum.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá auglýsinguna á Facebook en þar er mynd af Björgólfi við fyrirsögnina „Leið fjárfestis til þess að hagnast á Bitcoin,“ en hlekkurinn er inn á síðun colnsulting.com sem er í raun rangur innsláttur á orðinu „Consulting“ sem þýðir ráðgjöf á íslensku.

Sé smellt á hlekkinn fara notendur inn á aðra síðu sem er falsútgáfa af síðu fréttaveitunnar CNN. Þar má finna falska frétt um að fjárfestirinn Björgólfur Thor sé að afhjúpa hvernig hann hagnist á Bitcoin viðskiptum í því skyni að kenna Íslendingum aðferðina. Þar er jafnframt haft eftir Björgólfi, ranglega svo það sé tekið fram, að viðskiptavinir hans hagnist daglega um 23% á viðskiptum með Bitcoin en skjáskot af fölsku CNN síðunni má sjá hér að neðan.

Svindlað með nafni Björgólfs Thors
Svindlað með nafni Björgólfs Thors
© Skjáskot (Skjáskot)

Falsfréttir þar sem nafn Björgólfs er misnotað koma reglulega upp en sem dæmi má nefna fjallaði RÚV um svipað svindl í september síðastliðnum.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Björgólfs Thors, segir að mál sem þessi komi reglulega upp en þá sé haft samband við Facebook sem taki efnið út. Það muni einnig vera gert í þetta skiptið.