Litlar breytingar urðu á gangvirði hlutabréfa flestra fyrirtækja á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Viðskipti með hlutabréf námu samtals 2 milljörðum króna og úrvalsvísitalan lækkaði um þriðjung prósentustigs.

Mest hreyfðust bréf Kviku banka, um 3,05% í 106 milljón króna viðskiptum. Þar næst komu bréf Eimskipa með 1,76% lækkun í 50 milljón króna viðskiptum og TM með 1,49% lækkun í 72 milljónum.

Bréf Festar voru þau einu sem hækkuðu að nokkru ráði, um 1,08% í 236 milljóna viðskiptum, en næst komu bréf Eikar með 0,29% hækkun í litlum 15 milljóna viðskiptum, og Icelandair og Reitir með 0,27% hækkun, flugfélagið í 90 milljóna viðskiptum og fasteignafélagið í aðeins 50 þúsund króna viðskiptum.

Mest voru viðskipti með bréf Arion banka, 452 milljónir króna sem skiluðu bankanum 0,24% hækkun, en þar næst komu Marel með 0,86% lækkun eftir 438 milljóna króna viðskipti, og Reginn með 0,35% lækkun í 247 milljóna króna viðskiptum.