Töluverð lækkun hefur orðið á olíu á mörkuðum í London og New York í dag. Er verðið hjá Brent í London nú skráð á 75,71 dollara tunnan og 72,75 dollara hjá WTI í New York. Þykja það tíðindi á markaðnum að verðið í Bandaríkjunum hafi tekið svo mikla dýfu niður fyrir verðið í London, en þar er verðið að jafnaði einum til tveim dollurum hærra en hjá Brent.

Sérfræðingar kenna lítilli eftirspurn við Atlantshaf um þessa stöðu, en meiri eftirspurn í Asíu haldi uppi markaðsverði á gæðaminni olíu frá Saudi Arabíu. Talið er að þetta „öfuga” hlutfall á olíumörkuðum kunni að haldast fram á fyrrihluta næsta árs.

Opnunarverð í London í morgun var 76,78 dollarar á tunnu og hæst hefur verðið innan dagsins farið í 77,02 dollara, en lægst í 75,22 dollara tunnan. Í New York hefur niðursveiflan orðið talsvert meiri. Þar var opnunarverð í morgun 74 dollara á tunnu, en lægst hefur verðið farið í 72,54 dollarar.