*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 11. janúar 2017 14:09

Sviptingar á hlutabréfamörkuðum

Í kjölfar veikingar krónunnar hækka hlutabréf fyrirtækja með erlent greiðsluflæði í verði en önnur lækka.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Töluverðar sviptingar hafa verið á mörkuðum í dag, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður hefur íslenska krónan veikst nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í dag.

Einnig eru þónokkrar tilfæringar að eiga sér stað á hlutabréfamarkaði og langflest hlutafélög eru að lækka í verðgildi meðan Eimskip, Nýherji, Icelandair og Marel hækka.

Færa sig inn í erlent greiðsluflæðis

Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja að markaðsaðilar séu að færa sig úr fyrirtækjum með innlent greiðsluflæði, eins og fasteignafélög, yfir í fyrirtæki sem hafa meiri tekjur erlendis frá.

Áhuginn hafi hingað til verið mikill á innlendum rekstrarfélögum en núna sé hann að flytjast yfir á fyrirtæki með erlent greiðsluflæði.

Miklar breytingar hafi átt sér stað á inn og útflæði gjaldeyris, en innflæðið hafi dregist mikið saman.

Vænta aukinna gjaldeyriskaupa

Búast sumir aðilar á markaði við að veiking krónunnar geti þýtt að minni líkur verði á vaxtalækkun Seðlabankans því hún hafi hækkað verðbólguvæntingarnar.

Möguleg áhrif af tilkomu nýrrar ríkisstjórnar séu líka að hafa áhrif á markaðinn. 

Einhverjir aðilar séu að velta fyrir sér hvort að Seðlabankinn muni færa eitthvað af gjaldeyrisforða sínum yfir í boðaðan stöðugleikasjóð sem gæti þá þýtt aukin gjaldeyriskaup Seðlabankans.