Íslenskur matvörumarkaður hefur undanfarinn áratug hið minnsta einkennst af stórum viðskiptablokkum sem reka allar gerðir verslana. Stór hluti verslana og verslanakeðja heyra undir Haga, Kaupás og Samkaup og hafa félögin skipt með sér stærstum hluta markaðshlutdeildar. Samanlögð hlutdeild þessara félaga nam um 85% á síðasta ári, ef litið er á veltu félaganna fyrir árið 2010. Þar af var hlutdeild Haga um 50%.

Nokkrar breytingar hafa þó orðið og samkeppni harðnað með tilkomu nýrra verslana. Í lok árs 2009 opnaði Jón Gerald Sullenberger verslunina Kost í Kópavogi og boðaði samkeppni á markaði. Þá bættist önnur verslun við markaðinn nú á vormánuðum þegar fyrrum eigandi og stofnandi 10-11, Eiríkur Sigurðsson, opnaði lágvöruverðsverslunina Víði í Skeifunni. Til marks um aukna samkeppni er næsti nágranni nýju verslunarinnar Hagkaup, sem er í eigu Haga.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að aðgerðir þeirra hafi ávallt miðað að því að auka samkeppni á markaði matvæla. „Bæði fyrri mál, líkt og um undirverðlagningu Haga og eignarhald Arion banka á Högum, og nú síðast forverðmerkingarmálið, hafa miðað að aukinni samkeppni. Væntingar okkar stóðu til að þessar aðgerðir efldu samkeppni.“

Aðspurður um hvort þróunin í dag sé í rétta átt segir Páll Gunnar að í það minnsta sé hægt að tala um ákveðna gerjun á markaði. „Það verður síðan að koma í ljós hver þróunin verður.“

Úttekt á eignarhaldi matvöruverslana og á umfangi þeirra er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.