Mikið hefur að undanförnu borið á auglýsingum í blöðum eftir starfsfólki í verslanir. Forsvarsmenn stærstu verslana landsins segja atvinnuástandið samt vera svipað og undanfarin ár segir í nýjasta fréttablaði Samtaka verslunar og þjónustu.

Þar er bent á að á haustin þegar skólar hefjast verður alltaf aukinn skortur á verslunarfólki og eftirspurn eftir fólki töluvert umfram framboð. Dagvöruverslanir hafa mjög skýrar reglur um skipulag starfsmannamála sem í engu er vikið frá, þrátt fyrir árstíðarbundinn vanda við mönnum starfa. Þykir stjórnendum verslana þær ásakanir sem heyrst hafa frá VR um of mikið vinnuálag á unglingum vera ósæmandi og kalla eftir dæmum um að þetta eigi sér stað. VR hefur hins vegar ekki upplýst um þau.

Erlendir starfsmenn hafa í auknum mæli verið ráðnir í verslunarstörf sem ekki krefjast mikillar tungumálakunnáttu, t.d. á lager og við áfyllingar í hillur. Mjög góð reynsla er af þessum starfsmönnum og munu verslanir halda áfram að leita eftir slíkum starfsmönnum og jafnvel bjóða þeim sem þurfa námskeið í íslensku til að þeir hafi tök á því að taka að sér önnur störf sem krefjast íslenskukunnáttu.

Mikill áhugi er einnig meðal stjórnenda verslana að fá eldri starfsmenn til starfa. Er þar átt við starfsmenn sem komnir eru yfir miðjan aldur og eru jafnvel að komast á eftirlaun, þó ekki sé nema í hlutastörf. Því miður hefur það ekki tekist sem skyldi og ræður þar nokkru að ellilífeyrir og aðrar bætur skerðast ef fólk vinnur sér inn einhverjar tekjur.

Mikil starfsmannavelta einkennir verslanir og má ætla að algengt sé að velta starfsmanna í dagvöruverslunum sé um 100%, sem jafngildir því að allir starfsmenn verslunar láti af störfum á hverju ári og nýir séu ráðnir í staðinn.