Væntingavísitala Capacent Gallup hækkaði í september, sjötta mánuðinn í röð, og hefur hún ekki verið hærri síðan vorið 2008. Vísitalan er engu að síður undir 100 stigunum. Þegar hún fer yfir það eru fleiri jákvæðir en neikvæðir. Vísitalan hefur verið undir 100 stigunum í fjögur og hálft ár eða síðan í mars árið 2008.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að niðurstöður mælingarinnar nú bendi til að bjartsýni hafi ekki orðið fyrir neinum teljanlegum skakkaföllum þrátt fyrir veikingu krónunnar undanfarinn mánuð og versnandi verðbólguhorfur í kjölfarið.

Í Morgunkorninu segir að tölur af vinnumarkaði sýni að full ástæða sé til aukinnar bjartsýni á þessu sviði eftir erfiða tíma undanfarin ár.