Menningarhúsið Hof á Akureyri fagnar tíu ára starfsafmæli á þessu ári. Líkt og nafnið hússins gefur til kynna þá er það miðstöð menningar í höfuðstað Norðurlands en þar eru á hverju ári haldnir fjöldi tónleika, sem og leiksýningar. Þá er húsið heimavöllur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, sem getið hefur sér gott orð undanfarin ár. Auk þessa eru árlega haldnir fjöldi funda og ráðstefna í Hofi.

Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar sem rekur Hof, segir að á síðasta starfsári hafi verið 104 ráðstefnur eða fundir haldnir í húsinu og samtals hafi þessir viðburðir staðið í 113 daga. Segir hún að þetta hafi verið aukning frá fyrra starfsári. Starfsárið í Hofi miðast ekki við áramót heldur byrjun ágústmánaðar og eru bókanir funda og ráðstefna í kringum 36% af heildarbókunum í Hofi.

Kristín Sóley segir að ágætisgangur hafi verið í þessum málum á yfirstandandi starfsári, sem hófst í byrjun ágúst eins og áður sagði.

„Nýtingin núna er mjög svipuð og á sama tíma á síðasta starfsári,“ segir hún. „Auðvitað mætti bókunarstaðan vera betri. Við getum nýtt húsið betur og sjáum ákveðin tækifæri til þess að laða að okkur enn fleiri fundi og ráðstefnur — bæði innlendar og alþjóðlegar. Þessa dagana erum við einmitt að vinna nýtt kynningarefni fyrir húsið og setja í loftið nýja heimasíðu en slóðin á hana verður mak.is .

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .