Í gær þann 10. júní var haldin atkvæðagreiðsla um umdeilda tillögu á breytingum á fjármálakerfi landsins. Var tillögunni hafnað með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Um það bil 76% kjósenda höfnuðu tillögunni en 24% kusu með henni. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um málið.

Tillagan, sem fékk nafnið Vollgeld, gekk út á að bönkunum þar í landi yrði bannað að lána út meiri peninga en þær ættu inni og gætu því ekki "búið til" peninga.

Atkvæðagreiðslan kom til í kjölfar undirskriftarlista þar sem hundrað þúsund manns skrifuðu undir en svissnesk lög kveða á um það að halda skuli atkvæðagreiðslu um öll mál sem ná hundrað þúsund undirskrifta eða fleiri.

Þeir sem studdu Vollgeld staðhæfðu að aðgerðin myndi koma í veg fyrir bólumyndun í hagkerfinu á meðan þeir sem gagnrýndu hana sögðu að hún myndi lama hagkerfi landsins.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunar komu ekki á óvart en skoðanakannanir í aðdraganda kosningana sýndu fram á að höfnun tillögunar væri líkleg.