Svisslendingar munu nú brátt kjósa um hvort ríkið eigi að innleiða svokallað borgaralaunakerfi. Kosið verður í júní á þessu ári. Stjórnvöld samþykktu að halda kosninguna nú á dögunum. Sagt er frá þessu á vef Fast Company.

Fjárhæðin sem hver og einn fullorðinn einstaklingur myndi hljóta á hverjum mánuði mun nema um 325 þúsund íslenskum krónum. Á ársgrundvelli nemur fjárhæðin um 3,9 milljónum króna. Þá munu börn einnig hljóta borgaralaun, eða um 81 þúsund krónur á mánuði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður eru borgaralaun í brennidepli um heim allan, og meðal annars hefur hugmyndin verið borin upp á Alþingi .

Í Finnlandi er unnið að þróun víðtækrar tilraunar með borgaralaun, þar sem meira en 100 þúsund manns munu fá um 143 þúsund krónur á mánuði. Þá hafa nokkrar hollenskar borgir einnig rætt hugmyndina og munu að líkindum framkvæma tilraunir með hana í sumar.