Frakkar og Svisslendingar samþykktu í dag að fara í samstarf til þess að draga úr skattsvikum. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Víða í heiminum eru stjórnvöld að reyna að nálgast fé sem hefur verið falið á aflandsreikningum eftir alheimskreppuna 2007 og 2008 vegna bágari stöðu ríkissjóða. Þannig vilja ríkisstjórnir hámarka skattheimtu.

Í síðasta mánuði ákvað Sviss að breyta lögum um bankaleynd til þess að geta tekið þátt með öðrum ríkjum til þess að draga úr skattsvikum og nú hefur slíkt samstarf með Frökkum verið innsiglað.