Tillögur Evrópuþingsins að nýjum og strangari reglum um launakjör starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa verið töluvert í umræðunni, enda fela þær í sér takmörk á bónusgreiðslum sem sumum, einkum breskum stjórnmálamönnum, þykja yfirgengileg. Þá eru starfsmenn evrópskra fjármálafyrirtækja eðlilega ekki ánægðir heldur.

Því er áhugavert að í Sviss, hinni óformlegu miðstöð leynilegrar bankastarfsemi, samþykktu kjósendur á dögunum lög um laun háttsettra starfsmanna í öllum fyrirtækjum þar í landi. Lögin, sem samþykkt voru með 68% greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, fela í sér að ákvarðanir hluthafafunda um laun stjórnenda eru bindandi og þau banna alfarið ráðningarbónusa og aukagreiðslur við starfslok. Þá er í lögunum að finna ákvæði um að brot á þeim varði við refsilög.

Eins og áður hefur komið fram vill breska ríkisstjórnin ná fram breytingum á tillögum evrópuþingsins, en ólíklegt er að það takist. Bretar eru aftur á móti sjálfir að íhuga reglur sem gera munu ákvarðanir hluthafafunda um laun bindandi og eiga að gera upplýsingar um launakjör stjórnenda gagnsærri.