Svisslendingar eru sá hópur ferðamanna sem eyddi mest í neyslu hér á landi á síðasta ári. Að meðaltali eyddi hver Svisslendingur 292 þúsund krónum í heimsókn sinni á Íslandi. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Til samanburðar var meðalneysla á erlendan ferðamann um 154 þúsund krónur. Alls námu heildarútgjöld Svisslendinga til ferðalaga hér á landi um 8,8 milljörðum króna. Alls heimsóttu 30.200 Svisslendingar landið í fyrra.

Neysluútgjöld Svisslendinga 58% meiri

Sé horft á meðalneyslu ferðamanna eftir þjóðerni hafa Svisslendingar trónað á toppnum hér á landi síðustu ár. Þeir hafa yfirleitt verið í nokkrum sérflokki á þennan mælikvarða og eytt töluvert meiru í neyslu en þær þjóðir sem á eftir hafa komið. Á síðasta ári voru Danir með næstmestu neysluna, eða 185 þúsund króna meðalútgjöld á hvern ferðamann. Meðalútgjöld Svisslendinga voru því 58% meiri en meðalútgjöld Dana. Neysla þeirra 6 þjóða sem koma næstar á eftir Svisslendingum liggur á nokkuð þröngu bili, eða frá 163-185 þúsund. Í þessum hópi eru Noregur sem kemur næstur á eftir Dönum með 178 þúsund, Þjóðverjar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Hollendingar.