*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Erlent 24. maí 2016 11:30

Svisslendingar kjósa um borgaralaun

Sviss gæti orðið fyrsta landið til að tryggja öllum landsmönnum þess lágmarkstekjur.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Fyrsta landið til að taka upp svokölluð borgaralaun gæti orðið hið íhaldsama Sviss, en í næsta mánuði kjósa íbúar þess hvort tryggja eigi landsmönnum lágmarkstekjur sama hvort þeir vinni eða ekki.

Kosningarnar verða 5. júní næstkomandi en ætlunin er að tekjutryggingin komi í staðinn fyrir velferðarkerfi landsins að hluta til.

Fylgismenn lagasetningarinnar vilja meina að hún muni tryggja öllum Svisslendingum ásættanleg lífskjör en andstæðingar taka fram að jafnvel þó þeim fylgi mikill kostnaður og hærri skattar muni tekjutryggingin einungis koma fólki rétt svo yfir fátæktarmörkin þar í landi.

Yfir 300 þúsund krónur fyrir að vera til

Þó lagasetningin taki ekki fram hver borgaralaunin verði er almennt rætt um að miðað sé við um 2500 svissneskra franka á fullorðna og 625 franka á börn, eða sem nemur um 315 þúsund íslenskra króna fyrir fullorðna og tæplega 80 krónur fyrir hvert barn, á mánuði.

Jafnvel þó umræða um borgaralaun virðist vera að færast í aukana víða um heim, þar sem Ontarioborg í Kanada, sem og Finnland og Holland hafa velt uppi hugmyndum um að taka þau upp virðist ólíklegt að Sviss verði fyrsta landið til þess. Skoðanakannanir sýna að um 72% íbúa muni kjósa gegn lagasetningunni.

Stuðningur bæði til hægri og vinstri

Búast má þó við að kosningin muni þó auka umræðu um þessi mál enn frekar, en sumir tengja hana við aukna tæknilega sjálfvirkni sem gæti gert mörg þau störf sem unnin eru í dag úrelt. Talsmenn hugmyndarinnar er einnig að finna þvert á hefðbundnar stjórnmálalínur og má nefna að nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Milton Friedman einn helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar setti fram svipaðar hugmyndir. Kallaði hann þær neikvæðann tekjuskatt þar sem atvinnutekjur myndu skerða tekjutrygginguna að hluta.