Svissneska þingið hefur samþykkt ný lög sem heimila svissneskum stjórnvöldum að afhenta bandarískum skattayfirvöldum upplýsingar um bankaviðskiptin bandarískra ríkisborgara í Sviss.

Lögin þykja umdeild og viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir að með þeim sé í raun verið að rjúfa hina þekktu svissnesku bankaleynd. Sá fyrirvari er þó í lögunum að rökstuddur grunur um skattsvik, þ.e. skattsvisk bandarískra ríkisborgara, þarf að liggja fyrir. Sá fyrirvari er þó óljós og skv. frétt Reuters fréttastofunnar geta svissnesk stjórnvöld afhent upplýsingar án þess að þau bandarísku geti tilgreint um hvaða einstaklinga ræðir. Þannig geta bandarísk yfirvöld óskað eftir upplýsingum um ákveðna hópa, íbúa á ákveðnum svæðum og einstaklinga sem uppfylla þar til gerð leitarskilyrði.

Bandarísk og svissnesk stjórnvöld hafa nú í rúm fjögur ár deilt nokkuð um þessi mál. Viðskipti bandarískra ríkisborgara við svissneska banka, s.s. UBS og Credit Suisse, hafa m.a. leitt til handtöku og gæsluvarðhaldsúrskurða starfsmanna þessara banka í Bandaríkjunum þar sem þeir eru grunaðir um að hafa aðstoðað bandaríska ríkisborgara við að koma fjármagni fyrir í skattaskjólum á vegum bankanna.

Í nokkrum málum hafa stjórnvöld og viðeigandi eftirlitsstofnanir ríkjanna tveggja komist að samkomulagi og í einstaka tilvikum hefur það gerst að bandarísk yfirvöld hafa fengið upplýsingar um bankaviðskipti þegna sinna í kjölfar sérstakra dómsúrskurða. Enn standa þó fjölmörg mál út af borðinu en talið er að hin nýju lög muni liðka til í samskiptum ríkjanna á þessu sviði.

Neðri deild svissneska þingsins samþykkti hin nýju lög í gær með 110 atkvæðum gegn 56. Efri deild þingsins hafði samþykkt lögin í desember sl.