*

föstudagur, 18. september 2020
Erlent 14. september 2020 18:16

Svissneska kauphöllin kaupir þá ítölsku

Tilboð Six í Borsa Italiana talið samsvara allt að 640 milljörðum íslenskra króna sem var hærra en tilboð Frakka og Þjóðverja.

Ritstjórn
Borsa Italiana er í Mílanó á Ítalíu og rekur sögu sína til ársins 1808.
Aðsend mynd

Svissneska kauphöllin Six á hæsta tilboðið í ítölsku kauphöllina Borsa Italiana. Kauphöllin í London býður þá ítölsku nú til sölu til að fá heimild samkeppnisyfirvalda í ESB fyrir á kaupum á gagnafyrirtækinu Refinitiv. Svissneska kauphöllin Six varð þriðja stærsta kauphöllin í Evrópu, mælt í tekjum, fyrr á árinu þegar hún keypti spænsku BME kauphöllina fyrir 2,57 milljarða evra.

Lundúnakauphöllin, London Stock Exchange (LSE) keypti ítölsku kauphöllina árið 2007 fyrir 1,6 milljarða evra. Ítalska kauphöllin í Mílanó var einkavædd og stofnað hlutafélag um hana árið 1998, en saga hennar nær aftur til tilskipunar konungsríkisins Ítalíu frá árinu 1808.

Tilboð svissnesku kauphallarinnar í þá ítölsku var hærra en tilboð bæði frönsku Euronext kauphallarinnar og þýsku kauphallarinnar Deutsche Boerse. Þau eru talin hafa verðlagt kauphöllina í Mílanó á 3,5 til 4 milljarða evra, að því er Reuters hefur eftir heimildum, en það samsvarar 560 til 640 milljörðum íslenskra króna.