Neðri deild svissneska þingsins hafnaði því í gær að taka til umræðu frumvarp sem gerir svissneskum yfirvöldum að afhenda bandarískum skattayfirvöldum upplýsingar um viðskiptavini svissneskra fjármálastofnana.

Svissnesk og bandarísk yfirvöld hafa í nokkur ár deilt um meðferð upplýsinga bandarískra viðskiptavina svissneskra fjármálafyrirtækja. Málið hefur velkst um í svissnesku stjórnkerfi um árabil en árið 2010 var UBS bankanum í Sviss, sem er einnig með starfsstöð í Bandaríkjunum, gert að afhenda bandarískum skattayfirvöld hluta af upplýsingum um bandaríska viðskiptavini sína.

Í stuttu máli má rifja upp að bandarísk yfirvöld hafa þrýst mjög á um að fá upplýsingar um bandaríska viðskiptavini svissnesku bankanna og jafnvel gengið svo langt að saka þá um að hafa aðstoða bandaríska þegna við að komast hjá skattgreiðslum.

Neðri deild þingsins hafnaði því með 126 atkvæðum gegn 67 að taka frumvarpið til umræðu. Í frétt BBC um málið kemur fram að lítill vilji sé til þess meðal svissneskra stjórnmálamanna að aflétta hinn víðþekktu svissnesku bankaleynd.

Efri deild þingsins samþykkti þó frumvarpið í síðustu viku með naumum meirihluta eftir miklar og harðar umræður. Það vó þyngst hótun bandarískra stjórnvalda að afturkalla starfsleyfi bankanna í Bandaríkjunum. Einn elsti einkabanki Sviss, Wegelin, hætti starfsemi í janúar sl. eftir að hafa verið sektaður um 58 milljónir Bandaríkjadala af bandarískum yfirvöldum. Bankinn hafði þá viðurkennt að hafa aðstoðað bandaríska þegna að koma um 1,2 milljörðum dala undan skattgreiðslum.