Svissneski seðlabankinn, SNB, hefur greint frá því að hann tapaði 50,1 milljarði svissneskra franka á fyrsta helmingi ársins. Nemur það rúmlega 6.800 milljörðum íslenskra króna.

Það má segja að SNB hafi lagt grunninn að tapinu upp á eigin spýtur. Erlendur gjaldeyrir bankans hefur lækkað gríðarlega í verði eftir að bankinn ákvað að leyfa gengi svissneska frankans að fljóta með því að afnema þak á gildi hans gagnvart evru fyrr á árinu.

Bankinn hafði keypt mikið af evrum til að halda evrunni í 1,2 svissneskum frönkum, en þegar hann yfirgaf þá stefnu í ársbyrjun rauk frankinn upp í verði og virði allra evra bankans féll jafnóðum.

Þá tapaði SNB einnig umtalsverðum fjárhæðum vegna verðlækkunar á gulli.