Bankastarfsmaður hjá svissneska bankanum Credit Suisse hefur verið handtekinn grunaður um skattalagabrot í Bandaríkjunum. Bandaríska lögreglan handtók manninn, sem heitir Christos Bagios, fyrir um tveimur vikum síðan við komu til Bandaríkjanna.

Financial Times segir að maðurinn gæti verið einn af nokkrum einstaklingum sem verða handteknir í tengslum við rannsóknina. Líklegt er að ákærur verða gefnar út síðar í þessari viku. Ennfremur segir að rannsókn Bandaríkjamanna hafi leitt til nokkurs skjálfta í Sviss vegna bankaleyndar sem ríkir í landinu.

Rannsókn á meintum skattabrotum nær til viðskiptavina bæði hjá UBS banka og Credit Suisse. Talið er að starfsmenn bankanna hafi aðstoðað ríka Bandaríkjamenn við að komast hjá því að greiða skatta. Fleiri en 23 viðskiptavinir UBS hafa verið ákærðir og í desember sl. viðurkenndi Renzo Gadola, starfsmaður UBS, að hafa aðstoðar ríka viðskiptavini við að komast hjá skattgreiðslum.