Svissneska námufyrirtækið Xstrata vinnur nú að því að safna 5 milljörðum punda (tæplega 800 milljarðar íslenskra króna) til að halda áfram fjandsamlegri yfirtöku (e. hostile takeover) á Suður-Afríska námufyrirtækinu Lonmin.

Xstrata bauð 10 milljarða Bandaríkjadala (um 830 milljarðar íslenskra króna) í Lonmin en stjórn síðarnefnda félagsins hafnaði tilboðinu.

Xstrata á nú í viðræðum við Royal Bank of Scotland og Deutsche Bank um fjármögnun yfirtökutilboðsins, sem mun væntanlega líta dagsins ljós á næstu 2 vikum.

Búist er við að Xstrata bjóði 33 pund á hlut í Lonmin. Lonmin er þriðji stærsti platínuframleiðandi heims, en Xstrata vill láta Lonmin leggja minni áherslu á iðnaðarmálma á borð við kopar.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.