*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 27. maí 2021 11:40

SVN hringt inn í skipinu Berki

Viðskipti með hlutabréf Síldarvinnslunnar voru hringd inn í morgun um borð í skipinu Berki við höfn í Neskaupstað.

Ritstjórn
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, hringdi inn viðskiptin í morgun.
Aðsend mynd

Viðskipti með hlutabréf Síldarvinnslunnar voru hringd inn í morgun um borð í skipinu Berki við höfn í Neskaupstað. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hringdi inn viðskiptin og Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland bauð félagið velkomið á markað.

„Skráning Síldarvinnslunnar er mikilvægt og spennandi skref fyrir okkur. Við hófum þessa vegferð því við vildum opna félagið fyrir nýjum fjárfestum og þannig veita þeim möguleika á að kynnast sjávarútvegi betur og þeim tækifærum sem í honum felst. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem félagið fékk frá almenningi í útboðinu. Við bjóðum nýja hluthafa innilega velkomna í félagið og hlökkum til að starfa með þeim,” segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Gunnþór Ingvason og Magnús Harðarson við athöfnina í morgun.

„Við bjóðum Síldarvinnsluna hjartanlega velkomna á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,” sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Síldarvinnslan er eitt af öflugustu sjávarútvegsfélögum landsins og skráning félagsins styrkir því þátt sjávarútvegs á hlutabréfamarkaði. Þá eykur hún sýnileika og gagnsæi og veitir almennum fjárfestum aðgang að félaginu eins og glöggt mátti sjá á þátttöku þeirra í útboði félagsins. Við óskum félaginu, hluthöfum þess og starfsfólki til hamingju með daginn og hlökkum til að styðja við félagið á áframhaldandi vegferð þess.”

Frá Nasdaq skjánum í Times Square í New York í morgun.