*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 2. nóvember 2020 11:00

„Svo er bara að finna næsta stríð...“

Fráfarandi forstjóri Íslandspósts segist ekki finna sig í því þegar pólítískari sjónarmið fara að skipta meira máli en rekstur.

Ritstjórn
Birgir Jónsson hefur starfað sem forstjóri Póstsins frá því í júní 2019.
Eva Björk Ægisdóttir

Birgir Jónsson fráfarandi forstjóri Íslandspósts segir að nú þegar rekstrarmál ríkisfyrirtækisins séu leyst, sem sé kannski eðlilegt í ljósi eignarhaldsins, að pólítískari sjónarmið fari að skipta meira máli sem hann hafi lítið að gefa í.

„Ég sem rekstrarmaður finn mig hins vegar ekki alveg nógu vel í slíkri stöðu og tel mig ekki hafa mikið að gefa í henni,“ segir Birgir á Linkedin síðu sinni.

„Þetta hefur verið algjörlega frábært verkefni en ég taldi að nú væri rétti tíminn til að skipta um við stýrið, stærstu rekstrarmálin eru leyst og önnur sjónarmið og svo það sé bara sagt hreint út, pólitískari sjónarmið, fara að skipta meira máli.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá rétt í þessu hefur Birgir ákveðið að hætta störfum hjá fyrirtækinu um leið og eftirmaður fæst, en hann hóf störf fyrir hartnær einu og hálfu ári síðan, í júní 2019. Hann segir að markmið hans þegar hann tók við hefði verið að sýna fram á að hægt væri að reka svona ríkisfyrirtæki á sama hátt og öll önnur fyrirtæki.

„Með alveg einstaklega flottum hópi samstarfsmanna um allt land tókst okkur að umbreyta félaginu, margfalda arðsemi, minnka skuldir um helming og stórbæta þjónustuna,“ segir Birgir.

„Fyrirtækið var nálægt greiðsluþroti í byrjun síðasta árs en er nú eitt arðsamasta póstfyrirtæki á Norðurlöndum og þar með mjög verðmætt fyrir eiganda sinn sem erum við öll, fólkið í landinu. Þessi viðsnúningur kemur ekki til vegna gjaldskrárhækkana, eins og margir halda, enda hafa tekjur fyrirtækisins dregist mikið saman á sama tíma.“

Að lokum segir hann að hann muni sakna þessa góða samstarfsfólks sem hann sé stoltur af að hafa fengið að berjast með í þessari orustu.

„Svo er bara að finna næsta stríð...,“ segir Birgir að lokum.