Svo virðist sem frjálsu falli krónunnar sé lokið í bili ef miðað er við þróun síðustu daga, að sögn greiningardeildar Kaupþings. Íslenska krónan hefur styrkst sem nemur 6,6% síðan á föstudag en hafði þar á undan veikst um rúmlega 11% eftir að ókyrrð gerði vart við sig á erlendum hlutabréfamörkuðum í byrjun júlí.

?Gengisvísitalan fór lægst í 118 stig í dag og styrktist króna sem því nam um tæp 2% en heldur dró úr styrkingunni eftir því sem leið á daginn. Við lokun markaða hafði krónan hinsvegar veikst örlítið og stóð þá gengisvísitalan í rúmlega 120 stigum,? segir greiningardeildin.

Tilkynnt var um krónubréfaútgáfu upp á fimm milljarða króna í morgun og nemur heildarupphæð krónubréfaútgáfu í ágúst um 56 milljörðum króna.

?Mikill vöxtur hefur verið í krónubréfaútgáfu að undanförnu og hefur útgáfan ekki verið meiri síðan í janúar á þessu ári. Veiking íslensku krónunnar og þróunin á alþjóða gjaldeyrismörkuðum hafa skapað hagstæðari skilyrði til stöðutöku í vaxtamunaviðskiptum á Íslandi og því þarf aukning í krónubréfaútgáfu ekki að koma á óvart. Íslenskir hlutabréfamarkaðir hækkuðu einnig í dag en OMI15 vísitalan hækkaði um 0,15% í dag. OMXI15 hefur hækkað um 10,5% síðan á fimmtudaginn síðastliðnum,? segir greiningardeildin.

Segja má, segir greiningardeildin, að ró hafi verið að færast yfir erlenda hlutabréfamarkaði undanfarna daga.

?Ókyrrð sem skapaðist í kjölfar vandamála tengdum undirmálslánum í Bandaríkjunum virðist vera í rénun. Umfang vandans er þó ekki ljóst eins og sakir standa og því má vænta frekari frétta af niðurfellingum veða í undirmálslánum sem notuð hafa verið til fjárfestinga. Flækjustig vandans er mikið þar sem hröð þróun afleiðuviðskipta síðustu ár hafa byrgt mönnum sýn um hvar áhættan af fjárfestingunum liggur,? segir greiningardeildin.

Hún segir að lækkun seðlabanka Bandaríkjanna á daglánvöxtum um 50 punkta virðist hafa fært ró yfir markaði. ?Í kjölfarið hefur krónan og aðrir hávaxtagjaldmiðlar styrkst og jenið veikst. Undanfarna 4 daga hefur jenið veikst um 10% gagnvart íslensku krónunni. Ennfremur ákvað seðlabanki Japan í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5%. Það virðist því vera að vaxtamunaviðskiptin eigi níu líf og gjaldeyriskaupmenn geti tekið gleði sína á ný,? segir greiningardeildin.