Væntanlegir sjónvarpsþættir sem byggðir verða á íslenska fjölspilaratölvuleiknum EVE Online kveiktu í ímyndunarafli Baltasars Kormáks, en hann mun taka þátt í gerð þáttanna. Í viðtali við Digital Trends segir Baltasar að ólíkt kvikmyndinni 2 Guns, sem byggð er á teiknimyndasögu, sé upprunalegi efniviður þáttaraðarinnar mun loðnari.

„Það var það sem dró mig að þessu, þessi hugmynd að sögurnar séu búnar til af spilurunum sjálfum.“ Hann segir að í leikjum eins og EVE geti mörkin milli ímyndunar og raunveruleika blandast og það þyki honum spennandi. „Þetta er nýtt fyrir mér. Það er svolítið eins og Matrix-myndin.“