Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, greindi frá því í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini í morgun að enn sé margt til skoðunar varðandi frumvarp um Seðlabanka Íslands. Rennur skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra út í haust en Eyjan greindi frá því síðastliðinn föstudag að það stefndi til að fjölga bankastjórum Seðlabankans í þrjá.

Í samtali við fréttastofu RÚV áður en þáttur Gísla hófst sagði forsætisráðherra að það væri verið að skoða það hvort fjölga ætti bankastjórum og vitnaði meðal annars til þess að í Bandaríkjunum sætu margir bankastjórar með einn formann bankaráðs. Lagði Sigmundur þó áherslu á að frumvarpið væri enn í vinnslu hjá fjármálaráðuneytinu og því ekkert ákveðið.

Mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að Már hefði lýst því yfir á árshátíð Seðlabankans, sem haldin var í gær, að hann væri tilbúinn að gegna starfinu áfram.