Raðfrumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Elon Musk er óhræddur við stórar hugmyndir. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum. Þegar hann er ekki að framleiða sólarorku og rafbíla, skýtur hann upp geimflaugum. Ævintýraþrá þessa unga og efnilega stofnanda Tesla Motors, virðast einfaldlega engar takmarkanir settar.

Árið 2006 skrifaði Elon færslu á heimasíðu bílaframleiðandans. Með færslunni skýrði hann hugsjónir sínar fyrir alheiminum í fjórum liðum. Fyrst skyldi framleiða dýra sportbíla. Hagnaðinn af sportbílunum skyldi nota til þess að framleiða Model S og Model X. Hagnaðinn af Model S og Model X skyldi nota til þess að framleiða ódýrari Teslu. Elon ætlaði sér einnig að skaffa sólarorku, en hann telur það bráð nauðsynlegt að hverfa frá jarðefnaeldsneyti.

Núna, tíu árum síðar, hafa draumar Elons flestir ræst. Model S bíllinn er fáanlegur í öllum heimshornum og fyrr í vetur var Model 3 kynntur til sögunnar. Model 3 er ódýrasta Teslan til þessa og á að vera liður í því að gera heiminn að betri og hreinni stað. Elon er samt langt frá því að vera hættur. Þó svo að seinustu markmið séu komin í höfn, þýðir ekkert að stoppa. Nú taka við stærri verkefni, og þau kynnti hann í nýjustu færslu sinni: Master Plan - Part Deux.

Á komandi árum ætlar Elon að sameina Tesla og Solar City. Fyrirtækin tvö eiga að geta myndað eina sterka heild, sem vinnur að því að skapa heim án jarðefnaeldsneytis. Elon vill sjá bílana verða enn sjálfbærari, og því sér hann fyrir sér að koma sérhönnuðum sólarsellum fyrir í hverju einasta ökutæki. Þegar það er komið, vill hann auka úrvalið í bílaflota Tesla og framleiða pallbíla, trukka og einhverskonar strætisvagna.

Útreikningar hans benda til þess að sjálfvirkir bílar séu tífallt öruggari. Sjálfvirkir bílar eru því næstir á dagskrá hjá kappanum. Fyrsta útgáfa sjálfstýringarinnar er nú þegar komin í Teslurnar og munu alsjálfvirkir bílar opna ýmis tækifæri fyrir félagið og viðskiptavini þess.

Hver einasti Bandaríkjamaður notar bílinn sinn einungis um 5 ti 10 prósent hvern dag. Fólk keyrir aðallega úr og í vinnu, en annars er lítið verið að hreyfa tækin. Teslan á því einnig að geta skapað tekjur fyrir eigendur sína. Á meðan fólk er í vinnunni, eða heima hjá sér getur bílinn keyrt um götur borgarinnar og skutlað fólki gegn gjaldi.

Það verður óneitanlega áhugavert að fylgjast með Elon Musk og bílaframleiðandanum Tesla næstu árin. Markmiðin eru stór og því mikið verk framundan.