Hinn hefðbundni íslenski stjórnarmaður er karlmaður á aldrinum 51-60 ára, líkast til viðskiptafræðingur, starfar sem framkvæmdastjóri eða forstjóri, hefur setið í mörgum stjórnum í gegnum tíðina og fær greidda þóknun á bilinu 50-150 þús.kr. á mánuði fyrir stjórnarsetu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun KPMG sem gerð var á meðal stjórnarmanna á Íslandi í sumar. Viðskiptablaðið hefur fengið afrit skýrslu sem inniheldur niðurstöður könnunarinnar en skýrslan kemur út á næstu dögum.

Könnunin nær til stjórnarmanna í framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum á lista Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu fyrirtækin á Íslandi auk fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða. Stjórnarmenn í rúmlega 230 fyrirtækjum og 32 lífeyrissjóðum fengu senda beiðni um þátttöku í könnuninni. Alls tóku 280 stjórnarmenn þátt eða um þriðjungur þeirra sem fengu beiðni um þátttöku.

Félögunum var skipt upp í fjóra flokka; framleiðslufyrirtæki, þjónustufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög og lífeyrissjóði. Rétt er að geta þess að þegar fjallað er um stjórnarmenn hér á síðunni er eingöngu átt við þá stjórnarmenn sem tóku þátt í könnuninni. Niðurstöður könnunarinnar gefa því eingöngu vísbendingu um stöðu, bakgrunn, tekjur, vinnuframlag og skoðanir stjórnarmanna svo fátt eitt sé nefnt. Eins og gefur að skilja er skýrslan um margt áhugaverð og viðamikil.

Í Viðskiptablaðinu er stiklað á stóru og dregnar upp mismunandi niðurstöður úr umræddri könnun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.