Á vefsíðunni Dataroma.com, er hægt að fylgjast með eignasöfnum þekktra fjárfesta á borð við David Einhorn, Bill Ackman, Carl Icahn og Warren Buffet. Í raun er um vef að ræða sem fylgist með virðisfjárfestum, þó aðrir óhefðbundnari vogunarsjóðsstjórar leynist inn á milli.

Upplýsingarnar eru iðurlega uppfærðar á hverjum fjórðungi og því geta áhugasamir aðilar reynt að sjá hvað stóru nöfnin kjósa að kaupa, eiga og selja. Fyrir utan það að skoða eignasöfn einstakra fjárfesta, er einnig hægt að skoða töflur sem gefa glögga mynd af vinsælustu fjárfestingarkostunum í heild sinni.

Eftirfarandi fyrirtæki eru prósentulega vinsælust í eignasöfnum þeirra sem Dataroma eltir:

1. Berkshire Hathaway

Berkshire Hataway er traust og tryggt félag, sem hefur undir forystu Warren Buffet skilað fjárfestum ríflega 20% ávöxtun á ári frá því að hann hertók það. Félagið er í raun tvískráð, en hægt er að kaupa B og A hluti, sem eru á ólíku gengi. Um 2,4% af þeim fjárfestum sem Dataroma eltir, eiga í Berkshire Hathaway B, en þeir eru 15 talsins. Um er að ræða aðila á borð við Michael Larson, sem stýrir Bill & Melinda Gates Foundation, Allan Mecham sem stýrir Arlington Value Capital og Guy Spier, sem stýrir Aquamarine Capital.

2. Wells Fargo

Um 20 stór nöfn eiga í Wells Fargo og er bankinn prósentulega séð í 2,33% af eignasöfnum þessara stóru nafna. 62,39% af eignasafni Charlie Munger og 16,49% af eignasafni Warren Buffett er í bankanum. Lou Simpson sem stýrir SQ Advisors, er með 9,78% af eignasafni sínu í bankanum.

3. Alphabet Inc.

Móðurfélag Google, Alphabet Inc. má finna í 1,67% eignasafnanna sem Dataroma skoðar. Fyrirtækið er tvísrkáð og eru bæði bréfin vinsæl. Michael Burry, stofnandi Scion Asset Management, virðist til að mynda ansi kokhraustur í garð Google. Samkvæmt síðunni er um 32,95% af eignasafninu hans í Alphabet. Þá eru Mohnish Pabrai og David Tepper, einnig að veðja á tæknirisann.

4. Microsoft Corp.

1,42% af ofurfjárfestunum á Dataroma eiga í Microsoft, en þeir eru um 20 talsins. Jeffrey Ubben, sem stýrir ValueAct Capital, er til að mynda með 19,36% af sjóðnum sínum í Microsoft. Önnur stór nöfn eru David Abrams og Donald Yacktman.

5. NMI Holdings

Í fimmta sæti á listanum er NMI Holdings. Um er að ræða fjármálafyrirtæki sem er í Emeryville í Kaliforníu. Aðeins tvö þekkt nöfn eru á listanum. Annars vegar er það Kyle Bass, sem er með 89,15% af eignasafni sínu í félaginu. Hins vegar er það Howard Marks, en hann er einungis með 1,28% af sjóðnum sínum í félaginu.

Bank of America, HRG Group, Sears Holdings og Oracle eru einnig í eignasöfnum þessara manna, en töflurnar má skoða hér .