Slökun á magnbundinni íhlutun stærstu seðlabanka heimsins, mögulegar kreppur í Kína og á Ítalíu, aukið ójafnvægi í heimsviðskiptum og popúlismi. Þetta gætu orðið íkveikjurnar að næstu fjármálakreppu, að mati Deutsche Bank, sem hefur birt greiningu á því hvernig næsta fjármálakreppa gæti litið út. Greiningin ber heitið „The Next Financial Crisis“.

Í greiningu Deutsche Bank er varað við því að hið alþjóðlega fjármálakerfi einkennist um þessar mundir af miklum öfgum á nokkrum sviðum. Eignaverð eru í sögulegu hámarki á alþjóðavísu, efnahagsreikningar seðlabanka eru gríðarlega stórir, skuldsetning er víða mikil, vextir eru í sögulegu lágmarki og popúlismi hefur verið að sækja í sig veðrið.

„Ef það verður fjármálakrísa tiltölulega fljótlega (innan við næstu 2-3 ár) verður mjög erfitt að horfa á þessa þætti og segja að það hafi ekki verið mögulegt að koma auga á þá,“ segir í greiningunni. Skýrsluhöfundar slá þó á þann varnagla að ekki sé verið að spá því að þessir þættir muni valda kreppu í raun og veru. Greiningunni sé aðeins ætlað að varpa ljósi á það hvar álag sé í hinu alþjóðlega fjármálakerfi, sem gæti leitt til keðjuverkandi áhrifa í hagkerfum heimsins.

Greining Deutsche Bank er 94 síður, en hér má nálgast samantekt CNBC á greiningunni.