Ríkissjóður gæti sparað sér allt frá einum milljarði króna og upp í rétt tæpa fjóra milljarða í vaxtagjöld af lánum á næstu árum. Allt fer það eftir því hversu hratt skuldirnar yrðu greiddar niður.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.

Fyrirspurn Katrínar um skuldir og vaxtagjöld ríkissjóðs var í þremur liðum. Hún spurði:

Hversu mikið mundu vaxtagjöld ríkissjóðs lækka ef skuldir ríkissjóðs yrðu greiddar niður um:

  • a.     20 milljarða kr.
  • b.     20 milljarða kr. á ári í fjögur ár
  • c.     80 milljarða kr.

Í svarinu kemur fram að í lok síðasta árs námu áætlaðar skuldir ríkissjóðs 1.492 milljörðum króna og áætluð vaxtagjöld 74,5 milljarðar króna.

Miðað við 20 milljarða króna lækkun á höfuðstól munu vaxtagjöld ársins lækka um 1.000 milljónir króna sé lækkunin miðuð við 1. janúar 2014. Miðað við 20 milljarða króna lækkun á höfuðstól næstu fjögur árin munu vaxtagjöld ársins lækka um 1.000 milljónir fyrsta árið, 1.050 milljónir annað árið, 1.100 milljónir á þriðja árinu og 1.150 milljónir á fjórða árinu.

Miðað við 80 milljarða króna lækkun á höfuðstól geti vaxtagjöld ársins lækkað um 3.995 milljónir króna sé öll lækkunin miðuð við 1. janúar 2014.

Tekið er fram að lækkun vaxtagjalda miðast alltaf við heilt ár og er ekki gert ráð fyrir verðlagsbreytingum á milli ára.