*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 16. mars 2019 12:05

Svört samkeppni og skuggi verkfalla

Rútufyrirtæki glíma við margar og flóknar áskoranir þessi misserin og líklega mun róður þyngjast enn frekar á komandi mánuðum.

Kristján Torfi Einarsson
Haraldur Teitsson, formaður Félags Hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónssonar ehf..
Haraldur Guðjónsson

 

Verkfallsaðgerðir gagnvart rútufyrirtækjum hafa verið samþykktar af samtökum launþega og hefjast 22. mars næstkomandi. Á sama tíma og rekstur verður stöðvaður hjá fyrirtækjum sem gera ráðningarsamninga og greiða starfsfólki samkvæmt kjarasamningum mun fjöldinn allur af rútum keyra um göturnar á vegum óskráðra félaga sem borga svört laun langt undir kjarasamningum og greiða hvorki skatta né gjöld.

Hörð samkeppni hefur verið á milli rútufyrirtækja síðastliðin ár en skv. Samgöngustofu eru um 655 aðilar með rekstrarleyfi til fólksflutninga hér á landi. Til viðbótar við þessa samkeppni hefur svört starfsemi í greininni vaxið jafnt og þétt.  

„Nú hefur þetta náð áður óþekktum hæðum og aldrei verið jafn áberandi,“ segir Haraldur Teitsson, formaður Félags Hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónssonar ehf.. Hann furðar sig á að þessi starfsemi hafi fengið að vaxa jafn mikið og jafn lengi og raun ber vitni án afskipta frá samtökum launþega og opinberum eftirlitsaðilum. „Við erum ekki lengur að tala um neina smáaura og fáeina einyrkja. Hér er á ferðinni þrautskipulögð starfsemi sem veltir milljörðum.“

Samkvæmt Haraldi urðu menn fyrst varir við svarta starfsemi í rútugeiranum áður en fjölgun ferðamanna fór almennilega á flug árið 2013 en síðan þá hafi hún fest hér rætur og vaxið ár frá ári. Ástandið hefur verið reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum síðan 2016 og bæði samtök launafólks og hagsmunasamtök rútufélaga hafa beitt sér fyrir því að þessi starfsemi sé stöðvuð.

„Þrátt fyrir mikla vinnu, óteljandi fundi, margar ágætar skýrslur og mikinn velvilja, er staðreyndin sú að þessi svarta starfsemi hefur aldrei verið jafn útbreidd og viðamikil,“ segir Haraldur, sem áætlar að starfsemin velti hundruðum milljóna króna í rútugeiranum einum. „Þegar allt er tekið með þ.e. allir leiðsögumennirnir sem eru hér ólöglega og ferðir sem farnar eru með minni hópa á smærri bílum, þá er umfangið í milljörðum króna. Þessir aðilar hafa svo stundað undirboð á verðum sem við eigum ekki möguleika að keppa við. Þetta geta þeir af því að þeir greiða enga skatta, hvorki virðisaukaskatt né önnur gjöld, og borga starfsmönnum sínum smánarleg laun, en samkvæmt athugun okkar eru laun bílstjóranna í kringum 5.000 krónur á dag. Auðvitað er ekki hægt að tala um samkeppni í svona umhverfi. Engu að síður hefur þetta fengið að viðgangast og komið í veg fyrir eðlilega verðmyndun og heilbrigða samkeppni,“ segir Haraldur enn fremur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér