*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 20. maí 2015 09:21

SVÞ: Innflytjendur kunna að eiga bótarétt

Samtök verslunar og þjónustu segja innheimtu sykurskatts hafa falið í sér mismunun.

Ritstjórn

Innflytjendur á vörum sem gjaldskyldar voru á grundvelli sykurskattsins, sem aflagður var um síðustu áramót, kunna eftir atvikum að eiga bótarétt á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna tjóns sem þeir kunna að hafa orðið fyrir vegna mismununar við innheimtu hans. Þetta segja Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) í fréttatilkynningu.

Í marsmánuði 2013 sendu samtökin kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem vakin var athygli stofnunarinnar á mismunun á innheimtu á vörugjöldum, svokölluðum sykurskatti, en að mati samtakanna fól sú innheimta í sér mismunun á milli innlendra framleiðenda og innflytjenda. Sykurskatturinn var aflagður síðustu áramót, en að mati samtakanna standa eftir álitamál sem eru óútkljáð.

Segja samtökin að aðilum hafi verið mismunað eftir því hvort um var að ræða vöru sem framleidd var hér á landi eða fullunnin í öðru aðildarríki EES-samningsins. Nánar tiltekið fólst sú mismunun í því að innlendum framleiðendum stóð til boða að greiða umrædd vörugjöld eftir á og í samræmi við það magn sem sannarlega var nýtt hverju sinni.

Fyrirkomulagið vakti upp spurningar

„Í kjölfar kvörtunar SVÞ leitaði ESA skýringa hjá íslenskum stjórnvöldum varðandi umrædda gjaldtöku og hugsanlegt misræmi varðandi hana. Að mati ESA var umrætt fyrirkomulag til þess fallið að vekja upp áleitnar spurningar um hugsanlega mismunun varðandi innheimtu á sköttum eftir því hvort um var að ræða innlenda framleiðendur eða innfluttar vörur.

Undir rekstri málsins hjá ESA voru lög um vörugjald afnumin og var umrædd gjaldtaka þannig felld úr gildi. Í ljósi taldi ESA ekki lengur vera til staðar hætta á mismunun og því má gera ráð fyrir að málinu verði lokið að svo stöddu af hálfu ESA,“ segir í tilkynningunni.

Umfjöllun ESA viðurkenning á mismunun

SVÞ telja að umfjöllun ESA um málið feli í sér viðurkenningu á því að umrædd gjaldtaka hafi falið í sér mismunun eftir því hvort um var að ræða innlenda framleiðslu eða innfluttar vörur sem var ósamrýmanleg ákvæðum 3., 10. og 14. gr. EES-samningsins. Þessu til viðbótar sé það einnig vafa undirorpið hvort og hvernig þessi framkvæmd samrýmist jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sem og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar.

„Að mati SVÞ kemur því til álita að innflytjendur á vörum sem gjaldskyldar voru á grundvelli sykurskattsins kunni eftir atvikum að eiga bótarétt á hendur íslenskum stjórnvöldum sökum þess tjóns sem þeir kunna af hafa orðið fyrir vegna þessarar mismununar,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Stikkorð: Sykurskattur
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is