SVÞ, Samtök verslunnar og þjónustu, gagnrýnir harðlega afgreiðslu atvinnuveganefndar Alþingis á áliti hennar vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutnings á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Telur SVÞ afgreiðsluna vera atlögu að þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækkana sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu sem SVÞ sendi frá sér.

Að sögn SVÞ átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar að mati SVÞ þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga.