Samtök verslunar og þjónustu hafa lýst yfir stuðningi sínum við frumvarp um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um var frumvarpið afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í gær.

Í tilkynningu SVÞ segir meðal annars að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð. Þá séu einkaaðilar tilbúnir að taka sínu hlutverki alvarlega:

Frelsi í viðskiptum fylgir ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarna áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv.

Þá segir einnig að verslunaraðilar muni annast hlutverk sitt með ábyrgð og öryggi, og því er fagnað að lögð sér áhersla á forvarnir í frumvarpinu.

Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.