Samtök verslunar og þjónustu hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau vísa því á bug að samkeppnisyfirvöldum hafi ekki borist nægilegar upplýsingar frá hagsmunaðilum um fyrirkomulag tollkvótakerfisins. Þá segir í tilkynningunni að ábendingar samtakanna til Samkeppniseftirlitsins hafi verið til þess fallnar að taka málefni þessi til skoðunar af hálfu eftirlitsins.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að fyrirkomulag á útboði með innflutningstolla væri andstætt hagsmunum neytenda og að vel komi til greina að hefja rannsókna á því hvort það hafi leitt til brota á samkeppnislögum. Nefndi hann að dæmi séu um að einstaka fyrirtæki hafi keypt 90% af öllum tollkvóta með alifuglakjöt.

Hafa tvisvar vakið athygli Samkeppniseftirlitsins

Í tilkynningu SVÞ segir að samtökin hafa um áraraðir barist fyrir umbótum varðandi innflutning á landbúnaðarvörum og auknu frelsi á þessu sviði bæði verslun og neytendum til hagsbóta. Í baráttu sinni hafi samtökin m.a. leitað til bæði umboðsmanns Alþingis og almennra dómstóla sem og vakið athygli opinberra aðila á þeim meingöllum sem uppi eru og þarfnast skoðunar.

Þau hafi í a.m.k. tvö skipti vakið athygli Samkeppniseftirlitsins á þeim ágöllum sem til staðar eru varðandi innflutning á landbúnaðarvörum og var skorað á eftirlitið að taka þessi mál til skoðunar og grípa til viðeigandi aðgerða. Annars vegar með erindi frá 7. nóvember 2013 og hins vegar með erindi frá 17. október 2014. Í báðum þessum erindum er vakin athygli á samkeppnislegum hindrunum sem felast í núverandi fyrirkomulagi á þessu sviði og til viðbótar er einnig vakin athygli á öðrum meinbugum, s.s. samráð mjólkurafurðarstöðva.