Landsbanki Íslands og Kaupþing gætu verið á meðal hugsanlegra kaupenda Swedbank, að mati sérfræðings Citigroup, Ronit Ghose, en hann nefnir einnig norska bankann DnBNOR og gríska bankann Marfin sem hugsanlega keppinauta um hnossið, að því er fram kemur á fréttavef Financial Times í dag.

Þegar stærðarmunur bankanna, lausafjárskortur á markaði o.fl., er hafður í huga hljóta þessar vangaveltur að sæta nokkurri furðu. Miðað við markaðshlutdeild er Swedbank sjötti stærsti banki á Norðurlöndum og er markaðsvirði hans er um 84 milljarðar sænskra króna, eða um 899 milljarðar íslenskra króna.

Til samanburðar má geta þess að áætlað verð á hollenska bankanum NIBC var í ágúst siðast liðnum, þegar Kaupþing tilkynnti um áhuga sinn á kaupum, um 286 milljarðar króna. Kaup Novators í Actavis voru upp á 190 milljarða króna á sínum tíma.

Markaðsvirði Kaupþings, sem er í hópi tíu stærstu banka á Norðurlöndum, er um 546 milljarðar króna. Markaðsvirði Landsbankans er um 293 milljarðar króna.

Swedbank hefur um 17 þúsund starfsmenn í fjórum löndum, með um 9 milljón einstaklinga í viðskiptum og um 475 þúsund fyrirtæki og félög.

Telur Swedbank álitlegan til sundurhlutunar

Fram kemur hjá Financial Times að hlutabréf í sænsku bönkunum SEB og Swedbank hafi hrapað í verði vegna m.a. áhyggja fjárfesta af stöðu þeirra í Eystrasaltslöndunum. Einkum gefi fjárfestar Swedbank gaum, en dótturfyrirtæki hans, Hansabank, starfar í Eystrasaltslöndunum. Hansabank var stofnaður í Eistlandi árið 1991 og hóf starfsemi í Lettlandi árið 1995 og í Litháen ári síðar.

Ótti manna við að efnahagur í þeim löndum muni taka krappa dýfu og valdi því að útlán banka þar til fasteignakaupa verði nær engin, hefur kynt undir áhyggjum um að Hansabank muni verða fyrir skaða sem hafi síðan voveifileg áhrif á Swedbank. Miðað við markaðsvirði Swedbanks þykir Hansabank næsta verðlaus, þó svo að enn hafi lánastofnanir í Eystrasaltslöndunum ekki goldið fyrir ástand fjármagnsmarkaða í miklum mæli.

„Markaðurinn lítur þessi lönd og verð hlutabréfa í Swedbank neikvæðum augum og yfirsést jákvæðu þættirnir,” hefur Financial Times eftir Ghose. Kveðst hann telja Swedbank álitlegan kost fyrir ofangreinda banka, með dulin verðmæti sem bjóði upp á að hann verði keyptur og hlutaður sundur.