Sydbank hefur yfirtekið rekstur danska bankans Trelleborg í Slagelse en hann var í reynd kominn í lausafjárþrot og niður fyrir lágmarkseiginfjárhlutfall. Bankinn, sem skráður er í kauphöllinni í Kaupmannahöfn, var settur á athuganarlista í gær vegna "verulegra fjárhagslegra vandræða" eins og sagði í tilkynningu.

Trelleborg rekur 15 útibú á Sjálandi og eitt í Árósum og var skráður í kauphöllina í Kaupmannahöfn í fyrra. Vandræði Trelleborg urðu ljós þegar bankinn neyddist til þess að senda frá sér tilkynningu til kauphallarinnar í gærmorgun en þar kom fram að danska fjármálaeftirlitið hefði krafist þess að bankinn sýndi fram á nægjanlega lausafjárstöðu og fullnægjandi eiginfjárhlutfall fyrir kl. átta í gærmorgun. Þetta virðist ekki hafa tekist og því sagði í tilkynningu Trelleborg frá í gærmorgun að bankinn hefði neyðst til þess að leita að "varanlegri lausn" á lausa- og eiginfjárstöðunni. Nú er ljóst að sú lausn felst í því að Sydbank yfirtekur reksturinn eða með "skilyrtum samruna" Trelleborg við Sydbank eins og sagði í tilkynningu.