Sydbank, einn af stærstu bönkum Danmerkur, hefur fært 300-350 milljónir danskra króna, jafnvirði allt að 7,8 milljarða íslenskra króna, á afskriftareikning. Bankinn færði niður virði útlánasafnsins um 1,2 milljarða danskra króna á síðustu þremur ársfjórðungum. og er búist við að um 200 milljónir danskra króna bætist við á síðustu þremur mánuðum ársins. Mest var fært niður af lánum til fyrirtækja og einstaklinga í landbúnaði.

Í uppgjöri bankans sem kynnt var í dag kom fram að rekstrarhagnaður nam 600 milljónum danskra króna á fyrstu þremur ársfjórðungum. Þetta jafngildir rúmum 13,3 milljörðum króna.

Í danska viðskiptablaðinu Börsen í dag er haft eftir Mds Thinggaard, sérfræðingi hjá Nykredit, að uppgjör bankans sé ekki gott. Vonbrigði sé að sjá niðurfærslu lána annað árið í röð.