Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði á dögunum þá Róbert Wessman, Árna Harðarsson og Magnús J. Magnússon af rúmlega þriggja milljarða króna skaðabótakröfu Matthíasar H. Johannessen.

Þrátt fyrir það taldi dómurinn einsýnt að háttsemi þremenninganna hefði bakað þeim skaðabótaskyldu gagnvart Matthíasi. Dómurinn taldi ekki unnt að dæma stefnanda bætur þar sem ekki liggur fyrir hvert endanlegt tjón hans er og sýknaði þremenningana því af kröfum hans „að svo stöddu“.

Dómsmálið er eitt fjögurra mála sem Matthías hefur höfðað gegn fyrrverandi samstarfsfélögum sínum.

Framseldi 94% hlut án vitneskju Matthíasar

Ágreininginn má rekja til félagsins Aztiq Pharma sem Matthías átti með Róberti, Árna og Magnúsi. Í gegnum dótturfélag þess keyptu þeir 30% hlut í lyfjafyrirtækinu Alvogen. Róbert Wessman eignaðist upphaflega 94% hlut í félaginu en hinir eigendurnir 2% hlut hver.

Svo fór hins vegar að Róbert framseldi hlut sinn til Árna sem fyrir vikið eignaðist 96% í félaginu. Að sögn þeirra kom aldrei raunverulega til þess að Róbert eignaðist fyrrgreindan hlut heldur hafi verið samið um með sérstökum viðauka að Árni yfirtæki framangreind 94%. Matthías segist þó ekki hafa frétt af framsalinu fyrr en töluvert seinna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .