Tveir fyrrverandi yfirmenn hjá bílaframleiðandanum Porsche, Wendelin Wiedeking og Holger Härter, voru í dag sýknaðir af ákæru um markaðsmisnotkun í Stuttgart. Málið snerist um fréttatilkynningu sem send var út af hálfu Porsche í október 2008, en saksóknarar héldu því fram að raunverulegur tilgangur tilkynningarinnar hafi verið að villa um fyrir fjárfestum og keyra upp gengi bréfa Volkswagen, en Porsche hafði þá eignast stóran hlut í síðarnefnda fyrirtækinu.

Í tilkynningunni var greint frá því að Porsche hefði aukið hlut sinn í Volkswagen úr 35% í 42,6% og ætti auk þess kauprétt á 31,5% hlut til viðbótar. Í kjölfarið rauk gengi bréfa Volkswagen upp, þvert á væntingar markaðsaðila. Margir vogunarsjóðir höfðu skortselt bréf Volkswagen í þeirri trú að gengi bréfanna myndi lækka eftir að Porsche eignaðist ráðandi hlut í félaginu.

Hefði gengi Volkswagen fallið hefði Porsche og eigendur félagsins orðið fyrir töluverðu gengistapi og héldu saksóknarar því fram að þeir Wiedeking og Härter hafi verið að koma í veg fyrir slíkt tap með útgáfu tilkynningarinnar. Porsche hefði á þessum tíma verið við það að verða uppiskroppa með lausafé og hefði því ekki getað nýtt sér allan kaupréttinn. Þvert á móti hefði Porsche þurft undir eðlilegum kringumstæðum að selja mikið af bréfum í Volkswagen til að halda sér á floti.

Á þetta féllst dómstóllinn ekki og voru þeir sýknaðir. Hefðu þeir verið sakfelldir hefði Porsche fyrirtækið þurft að endurgreiða um 800 milljónir evra, sem saksóknararnir sögðu að væri illa fenginn gróði fyrirtækisins. Eins hefði sakfelling orðið vatn á myllu vogunarsjóða, sem hafa höfðað mál gegn Porsche vegna þess taps sem þeir urðu fyrir vegna skortsölu sinnar haustið 2008.