Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Arion banka af kröfu Haga vegna vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum félagsins hjá bankanum. Hagar greiddu lánið árið 2009 en töldu sig hafa greitt of mikið og fengu til baka 515 milljónir króna vegna endurútreiknings. Niðurstaða lögfræðiálits gaf til kynna að Hagar ættu enn frekari kröfu á hendur bankanum.

Í dómi Héraðsdóms segir orðrétt:

„Stefndi dró frá það sem vangreitt var samkvæmt framansögðu er hann endurgreiddi stefnanda samtals 514.891.325 krónur 19. desember 2011. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi tekið við þeirri greiðslu án fyrirvara um frekari rétt sinn úr hendi stefnda. Hvað sem líður möguleika hans til að bera fyrir sig við uppgjörið að stefndi hafi glatað kröfu sinni um vexti fyrir liðna tíð, þar sem hann hafi þegar greitt vexti í samræmi við greiðslutilkynningar stefnda, fær dómurinn ekki séð að hann eigi af þeim sökum endurkröfurétt á hendur stefnda. Yrði á það fallist væri verið að taka réttarsamband aðila upp að nýju, sem þegar hefur verið gert upp, annars vegar með greiðslum 19. október 2009 og hins vegar með uppgjöri 19. desember 2011 á grundvelli endurútreiknings skuldanna. Með uppgjörinu var komið á jafnvægi milli of- og vangreiðslu í réttarsambandi aðila. Stefnandi leitar í máli þessu dóms sem myndi raska því jafnvægi og valda því að skuldbindingar hans, sem áttu að bera vexti, yrðu efndar með greiðslu á höfuðstól lánanna og ógildum samningsvöxtum. Slík niðurstaða er andstæð tilgangi almennra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem miða að því að tryggja réttar efndir á kröfum í samræmi við það sem fyrir liggur um réttindi og skyldur aðila. Kröfur stefnanda verða því ekki teknar til greina og ber að sýkna stefnda af þeim.“

Hagar hafa þegar ákveðið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Dómur héraðsdóms