Lögfróðir menn hafa klórað sér eilítið í kollinum undanfarið yfir þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að fallast ekki á áfrýjunarleyfi, í það minnsta að hluta til, í innherjasvikamáli sem kennt hefur verið við Icelandair. Ekki dugði til að í dómi Landsréttar var vísað í grein í hegningarlögunum sem hingað til hefur ekki reynt á.

Eftir að dómstigum fjölgaði með tilkomu Landsréttar þjónar Hæstiréttur ekki lengur hlutverki almenns áfrýjunardómstóls. Sökum þessa er ekki hægt að áfrýja málum beint til réttarins heldur þarf að sækja um leyfi til þess og kæruleiðum hefur að auki fækkað mjög. Deild þriggja dómara ákveður síðan hvort efni séu til að málið fái meðferð fyrir réttinum en það er meðal annars háð því að það varði atriði sem hafi verulega almenna þýðingu, málsmeðferð á fyrri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni.

Í fyrrnefndu Icelandair-máli var Kjartani Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni leiðakerfis Icelandair, gefið að sök að hafa miðlað upplýsingum, sem hann hafði aðgang að á undan öðrum í krafti stöðu sinnar, til aðila utan félagsins, Kristjáns Georgs Jósteinssonar. Sá hefði síðan nýtt umræddar upplýsingar til að gera valréttarsamninga byggt á því hvort viðbúið væri að gengi félagsins myndi hækka eða lækka þegar upplýsingarnar yrðu kunngjörðar.

Þriðji maðurinn sem ákærður var í málinu var Kjartan Bergur Jónsson, oft nefndur í sömu andrá og sælgætisframleiðandinn Kólus. Hann var ákærður fyrir hlutdeild í innherjasvikum fyrir að hafa, að áeggjan Kristjáns Georgs, nýtt sér sömu upplýsingar til að gera söluréttarsamning sem byggði á gengi Icelandair. Samkvæmt ákæru nam brúttóávinningur hans rúmlega 20 milljón krónum.

Dæmdur í héraði en síðan sýknaður

Í héraði voru þremenningarnir allir sakfelldir og dæmdir til fangelsisrefsingar auk þess að ávinningur var gerður upptækur. Í tilefni Kjartans Bergs var refsingin bundin skilorði. Í Landsrétti var refsing Kjartans Jónssonar þyngd um sex mánuði, úr 18 mánaða fangelsi í 24 mánaða, en refsing Kristjáns Georgs var áfram þriggja ára og sex mánaða fangelsi.

Kjartan Bergur var á hinn bóginn sýknaður, þar sem ákæruvaldinu tókst ekki að færa sönnur á að hann hefði vitað eða mátt vita að Kristján Georg hefði búið yfir innherjaupplýsingum. Í héraði þóttu skýringar hans ósannfærandi, meðal annars á því hve áfjáður hann hefði verið í að ljúka samningsgerðinni í símtali við verðbréfamiðlara og sú staðreynd að hann hefði sýnt verðbréfamiðlara skjáskot af samningi Kristjáns Georgs og sagt að hann vildi gera sams konar díl. Að mati Landsréttar var það ekki nægilegt til sakfellingar.

Þrátt fyrir sýknuna var ávinningur Kjartans Bergs gerður upptækur með dóminum. Var það gert með þeim rökum að um ávinning af broti Kristjáns Georgs hefði verið að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .