Hjúkr­un­ar­fræðing­urinn sem var ákærður fyr­ir mann­dráp af gá­leysi eft­ir að sjúk­ling­ur lést á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans seinnihluta árs 2012 hefur verið sýknaður. Spítalinn var einnig sýknaður.

Hjúkrunarfræðingurinn neitaði sök, bæði í skýrslutöku og fyrir dómi. Sak­sókn­ari fór fram á að hjúkrunarfræðingurinn yrði dæmdur í 4-6 mánaða skilorðsbundið fangelsi auk greiðslu sakarkostnaðar sem nam 1,2 milljón.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn í morgun.

Þetta var í fyrsta skipti sem spítalinn og starfsmaður hans eru ákærðir á þennan hátt fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga. Hjúkrunarfræðingurinn var ákærð fyrir að hafa láðst að tæma loft úr belg barkaraufartúbu þegar tengingu við öndunarvél var skipt út fyrir talventil. Sjúklingurinn gat því aðeins andað að sér lofti, en ekki frá sér, og lést skömmu síðar.