Ernst & Young ehf. (EY) og Rögn­valdur Dofri Péturs­son voru með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur í gær sýknuð af tæp­lega 673 milljón króna bóta­kröfu þrota­bús Sam­einaðs síli­kons hf. Niður­staða héraðs­dóms er á­huga­verð fyrir þær sakir að sam­kvæmt henni var sak­næmri hátt­semi Rögn­valdar Dofra, sem var endur­skoðandi fé­lagsins, til að dreifa en or­saka­tengsl skorti á milli hennar og meints tjóns.

Sagt var frá aðal­með­ferð málsins í Við­skipta­blaðinu í upp­hafi mánaðar. Þar kom fram að þrota­búið rekti tjón sitt meðal annars til hluta­fjár­hækkana í fé­laginu sem voru færðar jafn­harðan út af reikningum þess. Það hefði átt að hringja við­vörunar­bjöllum hjá góðum og gegnum endur­skoðanda. Þá hafi sam­runa­reikningur Stakks­brautar 9 ehf. og Sam­einaðs síli­kons hf. verið ó­full­nægjandi þar sem hann hefði ekki verið endur­skoðaður.

Um tvær hluta­fjár­hækkanir var að ræða í málinu. Sú fyrri, 224 milljónir króna, var fram­kvæmd að hluta til með skuld­breytingu og að hluta með reiðu­fé en sam­kvæmt yfir­lýsingu Dofra til fyrir­tækja­skrár var hún greidd með reiðu­fé. Í dóminum var ekki fallist á að í þessu gæti fallist nokkurs­konar sak­næm hátt­semi.

Snertilendingin hafði ekki áhrif

Hvað síðari hluta­fjár­hækkunina varðaði þá lá fyrir að fyrir þær var greitt í reiðu­fé og var það í sam­ræmi við yfir­lýsingu endur­skoðandans til fyrir­tækja­skrár. Í aðila­skýrslu sinni fyrir dómi hafði Dofri sjálfur sagt að „sam­kvæmt lögunum þá ber sér­fræðingi að­eins að stað­festa að greiðsla fyrir hluta­féð hafi farið fram, ekki að stað­festa hvort þeim verði varið skyn­sam­lega. Ætlar fé­lagið til að mynda að bjóða starfs­mönnum til tunglsins? Það kemur mér ekkert við.“

Á þetta féllst dómurinn en þar sagði að hluta­fjár­aukningin hefði sannar­lega skilað sér inn á reikning fé­lagsins og sú stað­reynd að þeir hefðu að­eins snerti­lendingu í bókum þess gæti ekki gefið til­efni að „kanna sér­stak­lega fyrir hvað væri greitt eða kanna eignar­hald og starf­semi fé­lagsins sem út­gjöldin gengju til“.

Sem fyrr segir byggði þrota­búið á því í annan stað að á­ritun endur­skoðandans á sam­runa­reikning fé­laganna hafi verið röng en lögum sam­kvæmt skulu fé­lags­stjórnir „annast að saminn sé endur­skoðaður sam­eigin­legur efna­hags- og rekstrar­reikningur“. Taldi þrota­búið að rang­lega hefði verið staðið að því verki.

Áritunarvenja ekki í samræmi við lög

Í á­ritun endur­skoðandans á sam­runa­reikninginn sagði að hann byggði á „árs­hluta­reikningum fé­laganna“ og að „drög að upp­hafs­efna­hags­reikningi […] [væru] í sam­ræmi við sam­runa­efna­hags­reikninginn“. Í fram­burði Dofra fyrir dómi kom fram að um­ræddur reikningur hefði ekki verið endur­skoðaður en slíkt er lög­skylt sam­kvæmt reglum fé­laga­réttarins. Þá sagði hann enn fremur að fyrir­tækja­skrá tæki slíkar á­ritanir góðar og gildar og jafn­vel á­ritanir um að reikningur hefði ekki verið endur­skoðaður.

„Sú venja sem Rögn­valdur Dofri lýsti fyrir dóminum að hefði skapast við á­ritun og gerð sam­runa­efna­hags­reikninga er ekki í sam­ræmi við fyrir­mæli laga um endur­skoðun,“ segir í dóminum. Þar er þess enn fremur getið að þótt fé­lög kunni að vera endur­skoðunar­skyld þá sé þeim al­mennt ekki skylt að leggja fram endur­skoðaða árs­hluta­reikninga.

„Enda þótt um­rædd laga­skylda til að saminn sé endur­skoðaður reikningur hafi hvílt á stjórn [Sam­einaðs síli­kons], en ekki stefndu, þá mátti góður og gegn endur­skoðandi gera sér grein fyrir þeim skyldum sem fælust í að­komu hans að þeim reikningi lögum sam­kvæmt. Sam­runa­reikningurinn átti sam­kvæmt af­dráttar­lausu orða­lagi laganna að vera endur­skoðaður,“ segir í dóminum. Orða­lag á­ritunar eða meint venja, um hvað kemst í gegn hjá fyrir­tækja­skrá, gæti engu breytt þar um.

Að mati dómsins var þar á ferð sak­næm hátt­semi „að taka með fé­lags­stjórn þátt í því að ganga frá málum með þessum hætti“ en sak­næmi er eitt af frum­skil­yrðum þess að til bóta­skyldu geti stofnast. Þó taldi dómurinn, sem skipaður var sér­fróðum með­dómanda, sem er lög­giltur endur­skoðandi, að jafn­vel þótt sam­runa­efna­hags­reikningurinn hefði verið endur­skoðaður „þá hefði sú vinna ekki leitt annað í ljós varðandi fjár­hag fé­laganna en það sem fram kemur í hinum á­ritaða ó­endur­skoðaða reikningi.“

Sú yfir­sjón, að senda frá sér ó­endur­skoðaðan sam­runa­efna­hags­reikning, hefði því í raun ekki haft nein á­hrif á fram­vindu málsins og skorti því upp á það að or­saka­tengsl væru milli hátt­seminnar og hins meinta tjóns. Breytti engu í þeim efnum að að­gæslu­skylda endur­skoðenda, sem sér­fræðinga og opin­berra sýslunar­manna, væri rík.

Sökum þess voru EY og Rögn­valdur Dofri sýknuð af bóta­kröfu þrota­búsins. Þá var þrota­búinu gert að greiða tvær milljónir króna í máls­kostnað.