Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna Símann af 900 milljón króna skaðabótakröfu Sýnar. Þá var niðurstaða um sýknu í gagnsök, af kröfu Símans um 2,5 milljarða króna bætur, einnig staðfest. Þetta kemur fram í tilkynningum frá báðum félögunum til Kauphallarinnar.

Dómur Landsréttar í málinu hefur ekki verið birtur. Málið teygir anga sína til upphafs þessarar aldar en árið 2012 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn samkeppnislögum, frá maí 2001 til ársloka 2007, með ólögmætum verðþrýstingi með verðlagningu sinni á lúkningargjöldum símtala.

Skaðabótakrafa Sýnar byggði á því að félagið hefði orðið fyrir tjóni á tímabilinu þar sem félagið hefði greitt of há lúkningargjöld á tímabilinu. Á móti taldi Síminn að félagið hefði greitt Sýn of há lúkningargjöld, þar sem Sýn hefði haft markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði, og krafðist bóta. Í báðum tilfellum lágu fyrir matsgerðir dómkvaddra matsmanna.

Héraðsdómur taldi ekki sannað að Sýn hefði haft markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði og sýknaði Sýn af þeim sökum. Dómurinn taldi á móti óvíst og ósannað hvort Sýn hefði þurft að bera rauntjón af háttsemi Símans og var Síminn því sýknaður.

Sem fyrr segir hefur dómur Landsréttar ekki verið birtur og því hefur blaðið ekki upplýsingar um það á hvaða grunni niðurstaðan nú byggir. Í tilkynningu Sýnar segir að félagið muni skoða dóminn og kanna á næstu dögum hvort sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Síminn fagnar á móti niðurstöðu Landsréttar og segir að með henni hafi „bæði Landsréttur og héraðsdómur staðfest að kröfur Sýnar hf. eigi ekki við rök að styðjast.“