Síminn og Sýn hafa verið sýknuð af Héraðsdómi Reykjavíkur af skaðabótakröfum hvers annars vegna verðlagningar símtala inn í farsímakerfi sín yfir 6 ára tímabil upp úr aldamótum. Þetta kemur fram í tilkynningum frá báðum félögum.

Stefna Sýnar frá 2013 (þá Vodafone) hljóðaði upp á 900 milljónir króna. Gagnkrafa Símans hljóðaði upp á 2,5 milljarða. Sýn segir líklegt að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.

Málið snýst um svokölluð lúkningargjöld, sem símafyrirtæki innheimta þegar viðskiptavinir annarra fyrirtækja hringja í þeirra viðskiptavini. Leyfilegur rammi slíkra gjalda var ákvarðaður og gefinn út af Póst- og fjarskiptastofnun á því tímabili sem um ræðir.

Tilkynning Símans í heild:

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Símann hf. af skaðabótakröfu Sýnar hf. vegna verðlagningar á símtölum inn í farsímakerfi Símans á árunum 2001-2007. Einnig sýknaði Héraðsdómur Sýn hf. af skaðabótakröfu Símans hf. vegna verðlagningar Sýnar hf. á sama tímabili.

Málið má rekja til verðlagningar á svokölluðum lúkningargjöldum í farsímaneti en um er að ræða gjald sem farsímafyrirtæki innheimta hvort af öðru þegar viðskiptavinir þeirra hringja í viðskiptavini í öðru farsímakerfi. Þessi gjöld hafa verið ákveðin af Póst- og fjarskiptastofnun í fjölda ára og voru hámark þeirra ákveðin af stofnuninni þann tíma sem skaðabótakröfurnar taka til.

Ofangreint mál er eitt af þeim sem að félagið stendur í málarekstri vegna, eins og fram kemur í skýringu 16 með árshlutareikningi samstæðu Símans hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2018.

Tilkynning Sýnar í heild:

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag á kröfu Sýnar á hendur Símanum til greiðslu skaðabóta vegna brota Símans á samkeppnislögum um langt árabil, sem og gagnkröfu Símans á hendur Sýn.

Með ákvörðun nr. 7/2012 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. hefði misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn 11.gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. EES-samningsins. Brot Símans hf. fólust m.a. í því að hafa beitt samkeppnisaðila sína ólögmætum verðþrýstingi um langt árabil. Sýn höfðaði skaðabótamálið í nóvember 2013 sbr. tilkynningu til Kauphallar 1. nóvember 2013. Í kjölfarið gaf Síminn út gagnstefnu á hendur Sýn til greiðslu skaðabóta á þeim grunni að Sýn hefði sýnt af sér sömu háttsemi. Héraðsdómur sýknaði báða aðila af kröfunum. Líklegt má telja að Sýn muni áfrýja dómnum til Landsréttar.