Þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir á skattlagningu sykurs hefur innflutningur á honum haldið áfram að aukast í kreppunni. Athygli vekur að á sama tíma hafa verulegar hækkanir á skattlagningu áfengis leitt til stöðugt aukins samdráttar í sölu áfengis hjá ÁTVR, einkum á sterkum vínum.

Sala á ókrydduðu brennivíni og vodka var t.d. 12% minni árið 2009 en 2008 þótt áfengissalan í heild hafi ekki dregist saman nema um 1,4%. Einn mesti samdráttur ársins var þó í blönduðum drykkjum eða um tæplega 37% á árinu. Þá dróst heildarsala áfengis í janúar sl. saman um 9% miðað við sama mánuð 2009. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru flutt inn 9.257 tonn af sykri árið 2006. Árið 2007 voru flutt inn 10.038 tonn og 10.013 tonn árið 2008. Á árinu 2009 jókst sykurinnflutningurinn í 10.105 tonn þrátt fyrir hækkanir á sköttum í smásölu.