Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, segir að sykurskattur samræmist ekki loforðum ríkisstjórnarinnar sem gefin voru verkalýðshreyfingunni við gerð lífskjarasamningsins. Frá þessu greinir Vilhjálmur í Facebook færslu.

Ríkisstjórnin hefur skipað aðgerðarhóp sem er falið það verkefni að innleiða aðgerðaráætlun í heilbrigðismálum. Í þeirri aðgerðaráætlun er meðal annars lagt til að lagður verði á skattur sem muni hækka verð á sykruðum vörum um 20%.

Vilhjálmur Birgisson er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt tillögur um sykurskatt en bæði Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins hafa sagt að skattur á einstaka vöruflokka kunni að skerða samkeppnishæfni þeirra vöruflokka sem eiga í hlut.

„Það er ljóst að hugmyndir að stórauknum sykurskatti uppá allt að 20 til 30% rúmast alls ekki innan þess loforð sem ríkisstjórnin gaf verkalýðshreyfingunni samhliða gerð lífkjarasamningsins," segir í færslu Vilhjálms.

„En þar gáfu stjórnvöld og sveitafélög loforð um að stuðla að verðstöðugleika með því að lofa að gjaldskrár myndu ekki hækka um meira en 2.5%." Vísar Vilhjálmur þar í yfirlýsingu stjórnvalda til að liðka fyrir lífskjarasamningum en í henni segir:

„Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkisins ekki hækka á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Á árinu 2020 munu gjöld hækka um 2,5% að hámarki en minna ef verðbólga er minni. Brýnt er að fyrirtæki á markaði axli ábyrgð á þróun verðlags og er gengið út frá því að svo verði. Ríkisstjórnin mun einnig beita sér fyrir því að fyrirtæki í ríkiseigu, þ.m.t. orkufyrirtæki, gæti ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar.“

„Ég hins vegar geri mér alveg grein fyrir að það er lýðheilsumál að taka á aukinni sykurneyslu en ég tel það ekki vænlegt til árangurs að gera það á forræðishyggjunni einni saman. En það er rétt að geta þess að ég tel það líka vera lýðheilsumál að hér ríki verðstöðugleiki sem leiðir enn frekar til þess að lágtekjufólk nái að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar," segir Vilhjálmur jafnframt.