Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sagst vera opin fyrir því að taka upp svokallaðan sykurskatt að nýju til að efla lýðheilsu. Stjórnendur innlendra sælgætisgerða segja áform um sykurskatt illa ígrunduð og íþyngjandi fyrir sælgætisgerðir.

„Það eru engar einhlítar niðurstöður í rannsóknum um tengsl sykursýki og sykurneyslu sem sýna fram á beint samband þar á milli,“ segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Síríus.

„Svo hefur offituvandinn aukist á sama tíma og sykurneysla hefur dregist saman. Umræðan virðist einkennast meira af blindri trú og áróðri en upplýstri fræðslu. Ég efast um að sykurskattur hafi stórkostleg áhrif, en veit að hann eykur mjög flækjustigið hjá viðkomandi fyrirtækjum og er þeim dýr í framkvæmd. Það er því ástæða til að staldra við og reyna aðrar lausnir en að skattleggja einn fæðuflokk umfram annan,“ segir Finnur. Framkvæmdastjóri og eigandi Freyju, Ævar Guð­mundsson, hefur tekið í svipaðan streng.

Hvaða rugl er þetta eiginlega?“

„Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur,“ segir Helgi í Góu. „Bíddu við, erum við ekki sæmilega greind orðið, hvernig er það? Það getur vel verið að við séum orðin eitthvað of þung. En tökum við ekki bara á því í ró­legheitunum? Hefur fólk ekki vit á því hvað það setur ofan í sig? Hvaða rugl er þetta eiginlega?“

Sykurskatturinn, sem lagður var á árið 2013 en var afnuminn árið 2015, hafði lítil sem engin áhrif á sykurneyslu í landinu samkvæmt skýrslu Rannsóknarseturs verslunar og þjónustu. Skatturinn skilaði hins vegar milljarði króna í ríkissjóð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .